Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Félagsþjónusta og húsnæðismál

Mál nr. 193/2023-Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 193/2023

Fimmtudaginn 22. júní 2023

A

gegn

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun

Ú R S K U R Ð U R 

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 14. apríl 2023, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála svar Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, dags. 15. mars 2023, við beiðni hans um greiðslu húsnæðisbóta.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með erindi, dags. 15. mars 2023, óskaði kærandi eftir greiðslu húsnæðisbóta hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun vegna leigu á íbúð í Danmörku þar sem hann væri með dvalarleyfi og tímabundið lögheimili. Erindi kæranda var svarað samdægurs af ráðgjafa stofnunarinnar þar sem fram kom að slíkt væri ekki hægt. Skilyrði til greiðslu húsnæðisbóta væri að vera búsettur og eiga lögheimili í húsnæðinu.

Með bréfi, dags. 18. apríl 2023, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar ásamt gögnum málsins. Sú beiðni var ítrekuð 11. maí 2023. Greinargerð barst 31. maí 2023 og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 5. júní 2023. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru til úrskurðarnefndar velferðarmála tekur kærandi fram að hann telji sig eiga rétt á húsnæðisbótum til Danmerkur þar sem hann geti fengið húsnæði þar til bráðabirgða þar til hann fái úthlutað íbúð hjá Kópavogsbæ þar sem hann eigi umsókn hjá velferðarsviði. Samkvæmt ESA samningum skipti ekki máli hvort kærandi búi í Kópavogi eða Danmörku. Það sé útilokað fyrir kæranda að fá leiguhúsnæði í sínu sveitarfélagi, Kópavogi. Biðtími sé um eitt og hálft ár en nú séu liðnir fjórir mánuðir og hann sé númer sex á biðlista. Kærandi vilji ekki flytja lögheimili sitt til Danmerkur fyrir þetta stuttan biðtíma, þá tapi hann rétti í sveitarfélaginu.

III.  Sjónarmið Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar

Í greinargerð Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar kemur fram að kærandi hafi þann 15. mars 2023 sent inn fyrirspurn til stofnunarinnar með tölvupósti um hvort hann gæti með dvalarleyfi í Danmörku til 12 mánaða og lögheimili þar tímabundið þar til hann fengi húsnæði hjá Kópavogsbæ, fengið húsnæðisbætur hér á landi gegn framlagningu dansks húsaleigusamnings. Kæranda hafi verið svarað samdægurs með tölvupósti þar sem honum hafi verið tilkynnt að ekki væri hægt að fá húsnæðisbætur þar sem eitt af skilyrðum til húsnæðisbóta væri að vera búsettur í húsnæði og eiga þar lögheimili. Kærandi hafi í kjölfarið óskað eftir nánara svari þar sem vísað væri í lög og reglugerðir vegna þeirrar synjunar sem hefði komið fram í fyrri tölvupósti. Kæranda hafi þá verið send þau skilyrði húsnæðisbóta er fram komi í 8. gr. laga um húsnæðisbætur og hluta af 9. gr. en þar komi fram í c. lið að húsnæðisbætur verði einungis veittar þegar um ræði íbúðarhúsnæði hér á landi. Þann 14. apríl 2023 hafi tölvupóstsamskipti þessi verið kærð til úrskurðarnefndar velferðarmála.

Í máli þessu sé deilt um tölvupóstsamskipti á milli kæranda og Húsnæðis- og mannvirkjastofnunnar. Kærandi virðist líta á þær upplýsingar sem hann hafi fengið sendar í tölvupósti frá stofnuninni sem synjun um húsnæðisbætur. Stofnunin líti svo á að hér sé um að ræða almennar upplýsingar í formi tölvupósts til kæranda en ekki synjun. Engin umsókn liggi fyrir í málinu og því hafi engin ákvörðun verið tekin, þrátt fyrir þær upplýsingar sem hafi verið sendar kæranda í tölvupósti.

Í III. kafla laga um húsnæðisbætur sé fjallað um skilyrði húsnæðisbóta. Í 2. mgr. 9. gr. komi fram að húsnæðisbætur skuli einungis veittar að uppfylltum skilyrðum laganna. Í a. lið. 2. mgr. 9. gr. komi fram að umsækjandi og aðrir heimilismenn skuli vera búsettir í íbúðarhúsnæðinu, sbr. þó 10. gr. en þar sé fjallað um undanþágur frá þessu búsetuskilyrði. Einstaklingur geti átt rétt til húsnæðisbóta vegna leigðs íbúðarhúsnæðis þó hann eigi skráð lögheimili annars staðar á Íslandi, hafi hann tímabundið aðsetur í húsnæðinu í vissum tilvikum. Þessar undanþágur eigi ekki við í málinu og því verði ekki vikið nánar að þeim. Í c. lið. 2. mgr. 9. gr. komi svo fram annað skilyrði húsnæðisbóta er snúi að því að um sé að ræða íbúðarhúsnæði hér á landi sem feli í sér venjulega og fullnægjandi heimilisaðstöðu. Undanþágur frá þessu skilyrði laganna komi fram í 11. gr. og eigi þær við um sambýli fatlaðs fólks í húsnæðisúrræðum, sambýli einstaklinga á áfangaheimilum og sambýli námsmanna á heimavistum eða námsgörðum sem tengist viðurkenndum menntastofnunum. Miðað við fyrirliggjandi upplýsingar frá kæranda geti hann ekki átt rétt á húsnæðisbótum þar sem um sé að ræða húsnæði í Danmörku.

Kæranda hafi verið leiðbeint um hver skilyrði húsnæðisbóta væru með þann tilgang að svara fyrirspurn hans um hvort hægt væri að fá húsnæðisbætur þegar um væri að ræða íbúðarhúsnæði í Danmörku. Samkvæmt áðurnefndu ákvæði c. liðar 2. mgr. 9. gr. laga um húsnæðisbætur sé það eitt af skilyrðum fyrir veitingu húsnæðisbóta að um sé að ræða íbúðarhúsnæði hér á landi. Miðað við þær forsendur sem liggi fyrir sé ekkert sem bendi til annars en að kærandi hefði fengið synjun, hefði hann lagt inn formlega umsókn um húsnæðisbætur.

Ef úrskurðarnefnd velferðarmála líti svo á að hér sé um að ræða ákvörðun af hálfu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar geri stofnunin kröfu um að hin kærða ákvörðun í málinu verði staðfest.

IV.  Niðurstaða

Kært er svar Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, dags. 15. mars 2023, við beiðni kæranda um greiðslu húsnæðisbóta.

Hlutverk úrskurðarnefndar velferðarmála er að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana eftir því sem mælt er fyrir um í lögum sem kveða á um málskot til nefndarinnar, sbr. 1. gr. laga nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála. Í 6. gr. laga nr. 75/2016 um húsnæðisbætur kemur fram að heimilt sé að kæra ákvarðanir framkvæmdaraðila sem teknar eru á grundvelli laganna til úrskurðarnefndar velferðarmála innan þriggja mánaða frá því að aðila máls var tilkynnt um ákvörðun. Þannig er grundvöllur þess að úrskurðarnefndin geti tekið kæru til efnislegrar meðferðar að fyrir liggi stjórnvaldsákvörðun. Um stjórnvaldsákvörðun er að ræða þegar stjórnvöld taka ákvarðanir um rétt eða skyldur manna í skjóli stjórnsýsluvalds, sbr. 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Í IV kafla laga nr. 75/2016 er fjallað um umsóknir um húsnæðisbætur og upplýsingaskyldu. Þar segir í 1. mgr. 13. gr. að umsókn um húsnæðisbætur skuli vera skrifleg á þar til gerðum eyðublöðum og nauðsynleg gögn skuli fylgja henni. Framkvæmdaraðila sé heimilt að kalla eftir frekari upplýsingum og gögnum sem hann telji þörf á til að staðreyna rétt umsækjanda til húsnæðisbóta. Í 2. mgr. 13. gr. kemur fram að umsóknir skuli afgreiddar þegar allar nauðsynlegar upplýsingar og gögn hafi borist.

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun hefur vísað til þess að kærandi hafi ekki lagt inn umsókn um húsnæðisbætur til stofnunarinnar og því liggi ekki fyrir nein ákvörðun um rétt hans til húsnæðisbóta. Kærandi hafi einungis fengið almennar upplýsingar í tölvupósti vegna fyrirspurnar hans.

Að framangreindu virtu er ljóst að ekki lá fyrir stjórnvaldsákvörðun í máli kæranda þegar kæra barst úrskurðarnefndinni. Vegna þess er það mat úrskurðarnefndarinnar að málið sé ekki tækt til efnismeðferðar. Kærunni er því vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála. Úrskurðarnefndin bendir á að kærandi getur sótt með formlegum hætti um húsnæðisbætur hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun og eftir atvikum lagt fram nýja kæru hjá nefndinni í kjölfar ákvörðunar stofnunarinnar.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kæru A, er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum